Laugardagur, 7.4.2007
Lykt
Ég hef unnið á vinnustöðum sem lykta mismunandi, vann einu sinni í sjoppunni í Fylkisheimilinu gamla sem lyktaði ekki vel, það var eins og svitalyktin af knattspyrnusnillingunum yrði eftir á veggjunum þegar þeir höfðu farið í sturtu. Ég vann í leikhúsi og seldi helgarpöbbum með kaupstaðarlykt miða á barnasýningar. Vann á kaffihúsi/bar með svo lélegri loftræstingu að helst vildi maður afklæðast vinnufatnaðinum á útidyratröppunum eftir vakt. Þetta er allt löngu liðið og já, ég er með viðkvæmt lyktarskyn.
Yfirleitt venst sérstök lykt, þó ég viðurkenni að mér hugnast það vel að banna ilmvötn og rakspíra í leikhúsum og bíóhúsum. Ég hef ágætt lyktminni, á líka fallega lyktandi minningar af fólki og stöðum, en ég get ómögulega farið á snyrtinguna á þó nokkrum matsölustöðum þar sem rekstraraðilar halda að eiturefni með fölskum blómailm sé betri en sjálfsögð þrif (ef maður þrífur baðherbergið á heimili þar sem tveir búa að minnsta kosti einu sinni í viku, miðað við að hvor þeirra noti baðherbergið að meðaltali fjórum sinnum á dag, ætti að vera mjög auvðelt að reikna út að það þarf að þrífa almenningssalerni á eftir fimmtugasta og sjötta hverjum kúnna). Nema það sé gróðavænlegri aðferð að fólk noti hreinlega ekki snyrtinguna til að forðast eitraðan blómailminn.
Verst er þó að fara með bleyjubörn inná slík salerni með skiptiborði. Það getur tekið drjúgan tíma að bardúsa við bleyjuskipti og það klikkar ekki að matarlystin fýkur, máltíðin greidd og annars ágætur skyndibiti skilur eftir sig þvílíka ólykt að ég á ekki afturkvæmt í marga mánuði.
Það merkilegasta við lykt er hvað hún er persónuleg. Það er algjörlega ómögulegt að segja fólki að það lykti illa. Það er sjálfsagt mál að benda fólki á opna buxnaklauf, mat á milli tanna og hor sem er byrjað að gægjast út úr nös. Hvað gerir lykt svona persónulega? Ég efast ekki um að þeir sem lykta illa alla jafna hafa skert lyktarskin en hvers vegna er það sem augun ekki sjá svona viðkvæmt mál?
Athugasemdir
Snildar pælingar hjá þér.
Tómas Þóroddsson, 7.4.2007 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.