Sunnudagur, 1.4.2007
Grasekkja
Ég sá mér ástæðu til að hringja í eina góða vinkonu mína í gær, eingöngu til hylla hana. Hún er eintæð móðir til sjö ára. Ég hef alltaf dáðst að henni en ég held ég hafi ekki fyllilega skilið hennar aðstöðu fyrr en þessa vikuna. Maðurinn minn er í strákaferð í N.Y. í tvær vikur (lengsti aðskilnaðurinn til þessa), gormurinn með lungabólgu og ofuramman að ná sér eftir veikindi.
Ég sá fyrir mér að aðskilnaðurinn yrði öllum til góða, ég myndi plata mömmu til að passa oft og mikið til að fara í kæruleysislegar kaffihúsa- eða bíóferðir, halda veglegt stelpumatarboð og kannski fara loksins í 80 mín lúxusnuddið á Nordica Spa sem ég fékk í jólagjöf. Og sonurinn myndi að sjálfsögðu taka út mikinn þroska af því að umgangast ömmu sína almennilega.
En þroskann er gormurinn að taka út á stofugólfinu með mömmu sinni sem hefur rétt náð að skjótast út til að kaupa ný spil(leitun að góðum spilum fyrir tveggja ára), leir og DVD diska til að sleppa við að púsla sama púslið aftur og aftur og horfa á Múmínálfana í fimmtánda skiptið. Verkefnin á vinnustaðnum að hrannast upp og félagslífið sem átti að ná nýjum hæðum algjörlega lamað.
Það merkilega við vikuna er reyndar að í staðinn fyrir að safna skemmtilegum sögum af bæjarlífinu til að vega upp á móti New York ferðasögunum, á ég frábærar sögur af upplifunum okkar mæðginana úr stofufangelsinu sem eftir á að hyggja hefur verið líkara tjaldútilegu í góðri rigningu.
Þessi vinkona mín átti til smá samúð fyrir mig og sagði það örugglega verra að hafa einhvern tíma átt sambúðarmann en ekki, veit það ekki en ég ætla ða gefa henni borvél í jólagjöf á næstu jólum, hún er snillingur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.