Þarf hvítur þvottur að verða grár?

Það sagði mér vinkona mín að textílforvörður hefði sagt henni að ástæðan fyrir því að hvítur þvottur verður grár með tímanum er að maður noti of mikið þvottaefni.

Nú hef ég hent vel auglýstum þvottabæti og notað mjög lítið þvottaefni, ca. matskeið, í nokkra mánuði og viti menn þetta svínvirkar.

Hagkvæmt og vistvænt bragð. Varð að deila þessu.


Hlunkapusa

Ég er ekki enn farin að mæta í ræktina. Og mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna ég keypti mér líkamsræktarkort til þess eins að bæta við listann yfir allt það sem hin fullkomnna útivinnandi móðir ætti að vera að gera annað en að horfa á sjónvarpið.

Og mikið þykir mér vænt um að vinkona mín góð skyldi spyrja mig í morgun hvort ég vissi hvað orðið hlunkapusa þýðir.

Takk Freyja, ég tek þessa sneið, ét hana og melti hana sem áskorun og hvatningu. Hlunkapusa þýðir: Feitur og ólögulegur kvenmaður. Þar hafið þið það.


Börn eru stórlega ofmetin

Það krefst mikils átaks fyrir mig að fara í líkamsrækt, ég þoli ekki búningsklefa. Líklega eru það eftirköst áralangrar íþróttaástundunnar að mér leiðist rassakast kvenna og gufumettað loftið í klefunum. Ég sannfærðist alla vega um að þetta væri ástæðan þegar ég hitti kunningjakonu um helgina sem sagðist ekki þola sund af því hún æfði sund sem barn og unglingur.

Eftir spjall okkar fór ég heim með það í huga að búningsklefafælnin mætti ekki stoppa mig, mátaði kjólinn sem ég ætla að komast aftur í fyrir fertugt, bikiníið sem ég myndi vilja spranga um í á Krít í sumar og viðurkenndi fyrir mér að þrátt fyrir mikinn „áhuga” þá gengi ekki lengur að láta eins og ég geti grennt mig sjálf með því að hreyfa mig ekki, borða óhollan mat og mjög mikið af honum. Ég horfðist í augu við vandamálið. Notaði vanlíðanina og rauk út í rækt og keypti mér kort. Sagði öllum sem ég mætti frá þessu svo það verði nú örugglega allir alltaf að minna mig á að ég þurfi að nota kortið.  Svei mér þá ef það fuku ekki bara nokkur kíló og strekktust vöðvar við að ganga um keik og auglýsa dugnaðinn. Búningsklefafælnin skyldi sko ekki stoppa mig í þetta sinn, ég var búin að fjárfesta í bjartari framtíð(án þessa tala við nokkurn stjórnmálaflokk).

Svona bylgju fylgir mikil breyting á mataræði sem ég tók með trompi í gær og svo var ráðist í leiðinlegasta verk ársins, blessað bókhaldið og því troðið samviskusamlega í möppu handa endurskoðandanum. Um kl.2 í nótt voru svo dregnir ofan af háalofti strigaskór, einhverjar jogging buxur fundnar til og spandex samfestingurinn góði sem getur haldið öllu þessu holdi saman svo mögulegt sé að hreyfa sig án hossumeiðsla og varanlegra slita.

Og viti menn þar sem ég lagðist á koddann eftir að hafa stillt vekjarann á kl.7.15 þá heyrðist í barni:„mamma!” sonurinn sem finnur á sér að mamma er að gera eitthvað sem gæti truflað hans þægilega líf, vildi koma upp í og lúlla á milli. Jú, jú, ég reyndi að halda mér vakandi svo ég gæti fært hann yfir í sitt rúm en sofnaði að sjálfsögðu á undan honum og vaknaði þó nokkrum sinnum við mikið skraf og spjall í dregnum, sem er algjörlega yndislegur og á allt það besta skilið,  um kl.5.30 var hann svo bara glaðvaknaður og nætursvefn okkar hjónaleysanna gjörsamlega farinn fyrir bý. Ég rétt náði að loka augunum áður en rokið var í leikskólann og vinnunna. Og öll plön um hreyfingu og bætta líðan farin í hundana. 

Það er ótrúleg næmni í drengnum að þefa uppi að mamma sé með hugann við eitthvað annað en hann. Nú er bara að taka af skarið aftur í kvöld og mana sig í líkamsræktarhaminn.

Spurning um að fara á hótel í nótt til að ná nætursvefn...

 


Haraldarbúðartorg

Mér datt í hug þegar ég sat í sólinni á Austurvelli í dag að það ætti alls ekki að byggja nýtt hús þar sem Pravda var. Það gæti gefið Lækjartorgi tækifæri til að verða að bjartari og fallegri stað að opna gönguleið inná Jómfrúartorg. Það var einhvern tíma reynt en sú gönguleið var það þröng að ég ímynda mér að hún hafi bara boðið uppá sóðaskap. En ef gönguleiðin yrði jafnstór lóðinni að Aðalstræti 22(Haraldarbúðartorg, Hundadagakonungstorg, já eða Pravdatorg) væri hægt að opna Hressó í fleiri áttir og bjóða uppá skjólgott sólarútikaffi fram eftir degi. Að sama skapi myndi Lækjartorg fá sólarljós fyrr á vorin og lengur á haustin.

Til að ganga skrefi lengra væri svo hægt að rífa húsið í Pósthússtrætinu(við hliðina á Hótel Borg) sem hýsir Kaffibrennsluna ofl. og er augljóslega byggt á sama tíma og gamla Morgunblaðshúsið á Hallærisplani. Þetta myndi gera alla atburði sem fara fram í miðbænum bærilegri, því Austurstrætið stíflast alltaf illilega á Menningarnótt og 17.júní svo dæmi séu nefnd. Gleðilegt sumar.


Mannréttindi

Það er siður í minni fjölskyldu að skutla vandamönnum út á völl, reyndar er ég líklega sú eina sem viðheld þessum sið vegna nostalgíunnar og svo spennunnar sem fylgir akstri í myrkri og vondum veðrum. Reykjanesbrautin er sem betur fer orðin öruggari en áður, geðsjúklingarnir í umferðinni geta nú orðið komist fram úr manni án þess að stofna lífi manns í mikla hættu.

Á þessari leið rifjast svo alltaf upp ferðin sem Haukur föðurbróðir þurfti að ganga á undan bílnum á ansi löngum kafla svo við fjölskyldan sem var að koma frá útlöndum kæmist heim í þvílíkum hríðarbyl og það litlu skyggni að ekki sást á milli stika. Merkilegastar eru þó minningarnar úr gömlu flugstöðinni, að reyna að segja eitthvað við mömmu og pabba í gegnum gatið á glerinu í móttökusalnum og ég tala nú ekki um að sjá flugvélarnar lenda og taka á loft, það var stórbrotið.

Ég held sem sagt ennþá í þennan sið, þó stundirnar í Leifsstöð séu ekki eins skemmtilegar og þær voru þá er bara svo glatað að fara í rútu til Reykjavíkur eftir margra klukkutíma flug og það geri ég helst ekki mínum nánustu. Og ætlast að sjálfsögðu líka til að ég sé keyrð og sótt. 

Síðustu tvær ferðir hafa verið meira krefjandi en oft áður því tveggja ára sonur minn fékk að fara með. Bæði af því það er gaman og af því maður skellir börnum ekki í pössun til að fara út á völl kl. 6 á morgnanna. Móttökusalurinn í Leifsstöð hefur fengið mikla yfirhalningu og lýtur bara þokkalega út, það besta er að 10 - 11 hefur fengið að opna þar útibú og selur heitt kaffi, ýmislegt snarl og allskyns lesefni til að stytta stundirnar við biðina (já, ég misreikna mig alltaf þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fullkomna formúluna: aksturstími miðað við færð á vegum, sinnum umferðarþungi plús útgöngutími komufarþega).

Sú skemmtilega staða kom upp í annari ferð okkar mæðgina að kúkur kom í bleyju (hjá syninum). Ekkert mál, bleyja í veskinu og allt í góðu. En snyrtingin á Leifsstöð hefur ekki verið uppfærð, borðplássið í kringum vaskana er ekki mikið og þegar maður fer inní básana með klósettunum eru þau ekki með setu svo þar er erfitt að athafna sig með bleyjubarnið. Erfinginn óð að sjálfsögðu beint í opið klósettið og vildi sulla, eftir skammir opnaði hann litla ruslafötu og þar blasti við sprautunál(ok, tilfallandi). Ég fylltist viðbjóði og gargaði upp yfir mig og rauk út. Leitaði dauðaleit að skiptiborði eða sæmilega hreinu gólfi. Strammaði mig svo af og spurði indæla konu sem starfar hjá fyrirtæki á flugvellinum hvort hér væri skiptiborð að finna, hún hló við: „Hér?, ónei hér er er ekki hugsað um svoleiðis hluti”. Þetta var greinilega ekki í fyrsta skipti sem hún var spurð því hún var álíka hneyksluð og ég.

Sem betur fer fyrir flugfarþega, ekki soninn, ákvað að láta mér renna reiðina því ég var næstum búin að leggja soninn á mitt gólfið í komusalnum og skipta á honum í mannmergðinni.

Skiptiborð eru sjálfsögð mannréttindi barna og foreldra.


Lykt

Ég hef unnið á vinnustöðum sem lykta mismunandi, vann einu sinni í sjoppunni í Fylkisheimilinu gamla sem lyktaði ekki vel, það var eins og svitalyktin af knattspyrnusnillingunum yrði eftir á veggjunum þegar þeir höfðu farið í sturtu. Ég vann í leikhúsi og seldi helgarpöbbum með kaupstaðarlykt miða á barnasýningar. Vann á kaffihúsi/bar með svo lélegri loftræstingu að helst vildi maður afklæðast vinnufatnaðinum á útidyratröppunum eftir vakt. Þetta er allt löngu liðið og já, ég er með viðkvæmt lyktarskyn.

Yfirleitt venst sérstök lykt, þó ég viðurkenni að mér hugnast það vel að banna ilmvötn og rakspíra í leikhúsum og bíóhúsum. Ég hef ágætt lyktminni, á líka fallega lyktandi minningar af fólki og stöðum, en ég get ómögulega farið á snyrtinguna á þó nokkrum matsölustöðum þar sem rekstraraðilar halda að eiturefni með fölskum blómailm sé betri en sjálfsögð þrif (ef maður þrífur baðherbergið á heimili þar sem tveir búa að minnsta kosti einu sinni í viku, miðað við að hvor þeirra noti baðherbergið að meðaltali fjórum sinnum á dag, ætti að vera mjög auvðelt að reikna út að það þarf að þrífa almenningssalerni á eftir fimmtugasta og sjötta hverjum kúnna). Nema það sé gróðavænlegri aðferð að fólk noti hreinlega ekki snyrtinguna til að forðast eitraðan blómailminn.

Verst er þó að fara með bleyjubörn inná slík salerni með skiptiborði. Það getur tekið drjúgan tíma að bardúsa við bleyjuskipti og það klikkar ekki að matarlystin fýkur, máltíðin greidd og annars ágætur skyndibiti skilur eftir sig þvílíka ólykt að ég á ekki afturkvæmt í marga mánuði.  

Það merkilegasta við lykt er hvað hún er persónuleg. Það er algjörlega ómögulegt að segja fólki að það lykti illa. Það er sjálfsagt mál að benda fólki á opna buxnaklauf, mat á milli tanna og hor sem er byrjað að gægjast út úr nös. Hvað gerir lykt svona persónulega? Ég efast ekki um að þeir sem lykta illa alla jafna hafa skert lyktarskin en hvers vegna er það sem augun ekki sjá svona viðkvæmt mál? 

 


Grasekkja

Ég sá mér ástæðu til að hringja í eina góða vinkonu mína í gær, eingöngu til hylla hana. Hún er eintæð móðir til sjö ára. Ég hef alltaf dáðst að henni en ég held ég hafi ekki fyllilega skilið hennar aðstöðu fyrr en þessa vikuna. Maðurinn minn er í strákaferð í N.Y. í tvær vikur (lengsti aðskilnaðurinn til þessa), gormurinn með lungabólgu og ofuramman að ná sér eftir veikindi.

Ég sá fyrir mér að aðskilnaðurinn yrði öllum til góða, ég myndi plata mömmu til að passa oft og mikið til að fara í kæruleysislegar kaffihúsa- eða bíóferðir, halda veglegt stelpumatarboð og kannski fara loksins í 80 mín lúxusnuddið á Nordica Spa sem ég fékk í jólagjöf. Og sonurinn myndi að sjálfsögðu taka út mikinn þroska af því að umgangast ömmu sína almennilega.

En þroskann er gormurinn að taka út á stofugólfinu með mömmu sinni sem hefur rétt náð að skjótast út til að kaupa ný spil(leitun að góðum spilum fyrir tveggja ára), leir og DVD diska til að sleppa við að púsla sama púslið aftur og aftur og horfa á Múmínálfana í fimmtánda skiptið. Verkefnin á vinnustaðnum að hrannast upp og félagslífið sem átti að ná nýjum hæðum algjörlega lamað.

Það merkilega við vikuna er reyndar að í staðinn fyrir að safna skemmtilegum sögum af bæjarlífinu til að vega upp á móti New York ferðasögunum, á ég frábærar sögur af upplifunum okkar mæðginana úr stofufangelsinu sem eftir á að hyggja hefur verið líkara tjaldútilegu í góðri rigningu. 

Þessi vinkona mín átti til smá samúð fyrir mig og sagði það örugglega verra að hafa einhvern tíma átt sambúðarmann en ekki, veit það ekki en ég ætla ða gefa henni borvél í jólagjöf á næstu jólum, hún er snillingur.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband