Þriðjudagur, 24.4.2007
Börn eru stórlega ofmetin
Það krefst mikils átaks fyrir mig að fara í líkamsrækt, ég þoli ekki búningsklefa. Líklega eru það eftirköst áralangrar íþróttaástundunnar að mér leiðist rassakast kvenna og gufumettað loftið í klefunum. Ég sannfærðist alla vega um að þetta væri ástæðan þegar ég hitti kunningjakonu um helgina sem sagðist ekki þola sund af því hún æfði sund sem barn og unglingur.
Eftir spjall okkar fór ég heim með það í huga að búningsklefafælnin mætti ekki stoppa mig, mátaði kjólinn sem ég ætla að komast aftur í fyrir fertugt, bikiníið sem ég myndi vilja spranga um í á Krít í sumar og viðurkenndi fyrir mér að þrátt fyrir mikinn áhuga þá gengi ekki lengur að láta eins og ég geti grennt mig sjálf með því að hreyfa mig ekki, borða óhollan mat og mjög mikið af honum. Ég horfðist í augu við vandamálið. Notaði vanlíðanina og rauk út í rækt og keypti mér kort. Sagði öllum sem ég mætti frá þessu svo það verði nú örugglega allir alltaf að minna mig á að ég þurfi að nota kortið. Svei mér þá ef það fuku ekki bara nokkur kíló og strekktust vöðvar við að ganga um keik og auglýsa dugnaðinn. Búningsklefafælnin skyldi sko ekki stoppa mig í þetta sinn, ég var búin að fjárfesta í bjartari framtíð(án þessa tala við nokkurn stjórnmálaflokk).
Svona bylgju fylgir mikil breyting á mataræði sem ég tók með trompi í gær og svo var ráðist í leiðinlegasta verk ársins, blessað bókhaldið og því troðið samviskusamlega í möppu handa endurskoðandanum. Um kl.2 í nótt voru svo dregnir ofan af háalofti strigaskór, einhverjar jogging buxur fundnar til og spandex samfestingurinn góði sem getur haldið öllu þessu holdi saman svo mögulegt sé að hreyfa sig án hossumeiðsla og varanlegra slita.
Og viti menn þar sem ég lagðist á koddann eftir að hafa stillt vekjarann á kl.7.15 þá heyrðist í barni:mamma! sonurinn sem finnur á sér að mamma er að gera eitthvað sem gæti truflað hans þægilega líf, vildi koma upp í og lúlla á milli. Jú, jú, ég reyndi að halda mér vakandi svo ég gæti fært hann yfir í sitt rúm en sofnaði að sjálfsögðu á undan honum og vaknaði þó nokkrum sinnum við mikið skraf og spjall í dregnum, sem er algjörlega yndislegur og á allt það besta skilið, um kl.5.30 var hann svo bara glaðvaknaður og nætursvefn okkar hjónaleysanna gjörsamlega farinn fyrir bý. Ég rétt náði að loka augunum áður en rokið var í leikskólann og vinnunna. Og öll plön um hreyfingu og bætta líðan farin í hundana.
Það er ótrúleg næmni í drengnum að þefa uppi að mamma sé með hugann við eitthvað annað en hann. Nú er bara að taka af skarið aftur í kvöld og mana sig í líkamsræktarhaminn.
Spurning um að fara á hótel í nótt til að ná nætursvefn...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.